sunnudagur, 5. ágúst 2012

Uppruni hljóðsjárinnar

Ekki er hægt að fjalla um tækninýjungar sem hafa auðveldað skipstjórum lífið án þess að minnast á tilkomu hljóðsjárinnar sem betur er þekkt á meðal íslenskra sjómanna sem "ASDIC" sem er skammstöfun á "AntiSubmarine Detection Investigation Committee" sem var nefnd á vegum breska sjóhersins og sá um eins og nafnið gefur í skyn að finna kafbáta. Sá bandaríski kom með sitt eigið nafn á sama fyrirbæri (sem þeir nota bene fengu gefins frá þeim bresku) og nefndu það SONAR. Þeim sem hafa blæti fyrir skammstöfunum er bent á að SONAR er skammstöfun fyrir "SOund Navigation And Ranging."

Virkni tækisins er ekki ósvipuð dýptarmæli, nema í stað þess að geta bara mælt botninn beint fyrir neðan skipið, þá er hægt að mæla allt í kring eftir því hvernig maður stillir botnstykkið. Hér má sjá stutt myndband sem útskýrir virknina og hvernig vísindamenn nota tækið til þess að kortleggja sjávarbotninn og allt sem finnst á milli botns og yfirborðs sjávar.

Forsögu hljóðsjárinnar má rekja allt til ársins 1822 er Daniel Colloden gerði tilraunir til þess að mæla hraða hljóðs neðansjávar á Genfarvatni í Sviss. Tækin sem hann notaði til tilraunarinnar var einfaldlega bjalla sem slegið var í neðansjávar sem hékk neðan úr báti og míkrafóns sem nam hljóðið frá öðrum báti. Hér má sjá einfalda teikningu af efnivið tilraunarinnar.

Víkur nú sögunni til ársins 1912 er Lewis nokkur Richardson, sem var allt í senn, stærðfræðingur, eðlisfræðingur, veðurfræðingur, sálfræðingur og friðarsinni  gerði tilraunir til þess að finna ísjaka með hljóði neðansjávar en kveikjan að þeirri uppfinningu var einmitt Titanic slysið. Þeir sem til þekkja vita að Titanic sökk eftir árekstur við ísjaka. Upprunalega byggðist hans uppfinning á því að finna ísjakana með því að senda hljóðbylgu í gegnum andrúmsloftið og hlusta eftir bergmálinu en breytti henni fljótlega þannig að í stað þess að senda hljóðbylgju í gegnum andrúmsloftið, þá valdi hann að gera það neðansjávar. Þar með var hljóðsjáin brátt að veruleika og mátti þar þakka áhuga sjóherjum, sér í lagi þess breska sem þurftu bráðnauðsynlega að finna kafbáta og sökkva þeim í fyrri heimstyrjöldinni.

Paul Langévin varð sá næsti til þess að taka við keflinu, en í kringum árið 1916 tókst að hanna tæki sem gat numið hljóð sjávarbotninum og járnstykki á 200 metra dýpi. Tveimur árum seinna gat hann numið bergmál frá kafbáti á 1500 metra dýpi. Galli var þó á þessari gjöf Njarðar að á þessum tíma ekki var um senditæki að ræða, heldur eingöngu hlustunartæki. Það var ekki fyrr en við lok fyrri heimstyrjaldarinnar að honum tókst að senda út hljóðmerki ásamt því að hlusta á bergmálið. Þó svo að hans uppfinningar hafi ekki hjálpað miklu í fyrri heimstyrjöldinni, þar eð þær komu of seint, þá urðu þær mikilvægar þegar fram í dró og byggist sú hljóðsjártækni sem þekkist enn í dag á hans vinnu.

Það var ekki fyrr en um miðja 19. öld að Íslendingar fengu veður af þessu undratæki. Fyrsta íslenska skipið sem var búið hljóðsjá var varðskipið (Gamli) Ægir, en það var sett í skipið árið 1953 og fylgdu nokkur íslensk fiskiskip í kjölfarið. Ekki fylgdu nein kraftaverk þessu undratæki fyrst um sinn þar sem kunnáttuna vantaði. Nokkrir skipstjórar náðu þó einhverjum árangri með Eggert Gíslason, kunnan aflaskipstjóra á Víði II GK 275 frá Garði, fremstan í flokki.

Árið 1953 var ekki við lýði kvótakerfi á Íslandi.