sunnudagur, 5. ágúst 2012

Uppruni hljóðsjárinnar

Ekki er hægt að fjalla um tækninýjungar sem hafa auðveldað skipstjórum lífið án þess að minnast á tilkomu hljóðsjárinnar sem betur er þekkt á meðal íslenskra sjómanna sem "ASDIC" sem er skammstöfun á "AntiSubmarine Detection Investigation Committee" sem var nefnd á vegum breska sjóhersins og sá um eins og nafnið gefur í skyn að finna kafbáta. Sá bandaríski kom með sitt eigið nafn á sama fyrirbæri (sem þeir nota bene fengu gefins frá þeim bresku) og nefndu það SONAR. Þeim sem hafa blæti fyrir skammstöfunum er bent á að SONAR er skammstöfun fyrir "SOund Navigation And Ranging."

Virkni tækisins er ekki ósvipuð dýptarmæli, nema í stað þess að geta bara mælt botninn beint fyrir neðan skipið, þá er hægt að mæla allt í kring eftir því hvernig maður stillir botnstykkið. Hér má sjá stutt myndband sem útskýrir virknina og hvernig vísindamenn nota tækið til þess að kortleggja sjávarbotninn og allt sem finnst á milli botns og yfirborðs sjávar.

Forsögu hljóðsjárinnar má rekja allt til ársins 1822 er Daniel Colloden gerði tilraunir til þess að mæla hraða hljóðs neðansjávar á Genfarvatni í Sviss. Tækin sem hann notaði til tilraunarinnar var einfaldlega bjalla sem slegið var í neðansjávar sem hékk neðan úr báti og míkrafóns sem nam hljóðið frá öðrum báti. Hér má sjá einfalda teikningu af efnivið tilraunarinnar.

Víkur nú sögunni til ársins 1912 er Lewis nokkur Richardson, sem var allt í senn, stærðfræðingur, eðlisfræðingur, veðurfræðingur, sálfræðingur og friðarsinni  gerði tilraunir til þess að finna ísjaka með hljóði neðansjávar en kveikjan að þeirri uppfinningu var einmitt Titanic slysið. Þeir sem til þekkja vita að Titanic sökk eftir árekstur við ísjaka. Upprunalega byggðist hans uppfinning á því að finna ísjakana með því að senda hljóðbylgu í gegnum andrúmsloftið og hlusta eftir bergmálinu en breytti henni fljótlega þannig að í stað þess að senda hljóðbylgju í gegnum andrúmsloftið, þá valdi hann að gera það neðansjávar. Þar með var hljóðsjáin brátt að veruleika og mátti þar þakka áhuga sjóherjum, sér í lagi þess breska sem þurftu bráðnauðsynlega að finna kafbáta og sökkva þeim í fyrri heimstyrjöldinni.

Paul Langévin varð sá næsti til þess að taka við keflinu, en í kringum árið 1916 tókst að hanna tæki sem gat numið hljóð sjávarbotninum og járnstykki á 200 metra dýpi. Tveimur árum seinna gat hann numið bergmál frá kafbáti á 1500 metra dýpi. Galli var þó á þessari gjöf Njarðar að á þessum tíma ekki var um senditæki að ræða, heldur eingöngu hlustunartæki. Það var ekki fyrr en við lok fyrri heimstyrjaldarinnar að honum tókst að senda út hljóðmerki ásamt því að hlusta á bergmálið. Þó svo að hans uppfinningar hafi ekki hjálpað miklu í fyrri heimstyrjöldinni, þar eð þær komu of seint, þá urðu þær mikilvægar þegar fram í dró og byggist sú hljóðsjártækni sem þekkist enn í dag á hans vinnu.

Það var ekki fyrr en um miðja 19. öld að Íslendingar fengu veður af þessu undratæki. Fyrsta íslenska skipið sem var búið hljóðsjá var varðskipið (Gamli) Ægir, en það var sett í skipið árið 1953 og fylgdu nokkur íslensk fiskiskip í kjölfarið. Ekki fylgdu nein kraftaverk þessu undratæki fyrst um sinn þar sem kunnáttuna vantaði. Nokkrir skipstjórar náðu þó einhverjum árangri með Eggert Gíslason, kunnan aflaskipstjóra á Víði II GK 275 frá Garði, fremstan í flokki.

Árið 1953 var ekki við lýði kvótakerfi á Íslandi.

föstudagur, 27. júlí 2012

Sam Tillen svarað


Enski knattspyrnumaðurinn Sam Tillen kemur oft og iðulega með góða pistla á www.fotbolti.net  og gaman hefur mér fundist að lesa pistlana hans hingað til. Þó verð ég að fetta fingur út í síðasta pistil hans að knattspyrnumenn séu ekki fyrirmyndir annarra og sér í lagi barna „og setja ekki staðal í siðferðiskennd“ (Tillen, 2012) þegar á það var minnst í breskum sjónvarpsþætti, að oflaunaðir og [fordekraðir] knattspyrnumenn höguðu sér eins og hálfvitar innan sem utan vallar þegar þeir í raun og veru ættu að gera sér grein fyrir því að þeir væru einmitt fyrirmyndir.

Þegar kemur að uppeldi barna þá hefur allt áhrif, bæði góð eða slæm, hvaða nafni sem það gegnir. Menn og konur sem hafa knattspyrnu (og öðrum íþróttum) að aðalatvinnu eru (því ver og miður í mörgum tilfellum) fyrirmyndir barna og unglinga rétt eins og allar aðrar hliðar margbreytileika lífsins. Sam Tillen tekur sem dæmi Paul nokkurn Gascoigne í pistli sínum, enskan atvinnumann í knattspyrnu, sem sinn innblástur en samt þó ekki sem eiginlega fyrirmynd (Tillen, 2012).
Gazza eins og hann var kallaður, var jafnþekktur fyrir slæmu hliðar sínar rétt eins og að eltast við leðurtuðruna, sem margir elska að annað hvort að gera (hvort sem þeir fá borgað fyrir það eður ei) eða að horfa á atvinnumenn gera það (og jafnvel borga fyrir það mánaðarlaun sín). Gazza hóf feril sinn sem atvinnumaður í unglingaliði Newcastle 1983 þá 16 ára gamall. Eitthvað sem gamall kennari hans sagði að möguleikarnir á því að það gerðist væru einn á móti milljón (Gascoigne og  Davies, 2004). 

Þrátt fyrir að vera ungur að aldri þá var Gazza hokinn af reynslu og henni ekkert endilega svo góðri og gæfulegri. Heimilisaðstæður voru ekki góðar, fjölskyldan bjó þröngt í húsnæði á vegum borgarinnar, flutti oft og því miður var fjölskyldan ekki laus við heimilisofbeldi. Faðir hans varð óvinnufær vegna heilablóðfalls og Gazza varð vitni að því þegar yngri bróðir eins vinar hans lést þegar ekið var á hann. Fyrsta áfengissopann smakkaði hann 14 ára gamall og varð veikur af og lofaði sjálfum sér að smakka aldrei áfengi aftur, loforð sem hann náði að halda í heil fjögur ár. Ekki leið á löngu að hann var farinn að stela úr búðum til þess að geta fjármagnað fíkn sína í spilakassa og á einhverjum tímapunkti greindist hann með þráhyggjuröskun. Þrátt fyrir þessi áföll var hann fjandi góður í knattspyrnu, sérstaklega á sínum yngri árum og þar með væntanlega mörgum fyrirmynd og innblástur en er á ferilinn leið hallaði undan fæti hjá honum og þekktari varð hann fyrir ofbeldi og misnotkun áfengis og eiturlyfja meðal annars (Stewart, 2008). Væntanlega þá blásið fáum byr undir brjóst með þeirri hegðun sinni, en engu að síður, viss fyrirmynd.

Sam Tillen benti á að hann hafi notið góðs af því að eiga foreldra sem kenndu honum að þekkja muninn á réttu og röngu og nefnir að „ekki eitt augnablik hugsaði ég um að apa þetta upp eftir honum“, þrátt fyrir að hann hafi sótt innblástur til Gazza (Tillen, 2012). En því miður, búa ekki öll börn svo vel að eiga góða foreldra sem geta kennt börnum sínum góða siði, hvað sé rétt og hvað sé rangt og þar fram eftir götunum. Börn sem fæðast í þennan heim geta lent í því að eiga óhæfa foreldra, eða þá að foreldrar vilja þau ekki og gefa þau til ættleiðingar eða yfirgefa þau jafnvel síðar meir á lífsleiðinni. Slys geta gerst og foreldrar falla frá um aldur fram frá börnum sínum og svo fram eftir götunum. Sorglegt en engu að síður staðreynd.

Börn læra það sem fyrir þeim er haft og hvað ungur nemur, gamall temur. Þessi tvö spakmæli sem má finna reglulega í páskaeggjum ár hvert eru sígild og eiga alltaf við. Hvort sem maður á góða foreldra eða ekki, eða foreldra yfir höfuð. Ef foreldra skortir þá leitar maður einfaldlega annað og þá væri nú gott ef það væru til góðar fyrirmyndir til þess að líta upp til, líka í atvinnumennsku í knattspyrnu. Það þarf nefnilega heilt þorp til þess að ala upp barn og keðjan verður aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn í henni leyfir.

Það ættu hálaunaðir sem illa launaðir atvinnumenn, læsir sem ólæsir, í knattspyrnu að huga að, áður en þeir gera einhvern skandal af sér, innan vallar sem utan.


Heimildir  
Gascoigne, P. og Davies, H. (2004). Gazza : my story. London :: Headline.
Stewart, R. (2008). The life and times of Paul Gascoigne - Telegraph.  af http://www.telegraph.co.uk/sport/football/2292333/The-life-and-times-of-Paul-Gascoigne.html
Tillen, S. (2012). Fótboltamenn eru ekki fyrirmyndir barna. 2012(24. júlí).  af http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=130085

miðvikudagur, 11. júlí 2012

Uppruni dýptarmælisins

Ein mikilvæg uppfinning á rafeindasviðinu og snerti sjómenn var dýptarmælirinn. Áður fyrr þegar hans naut ekki við þurfti að lóða dýpið og var það gert á þann hátt að lóði var einfaldlega hent útbyrðis, oftast fyrir framan miðju skips, með áfastri taug sem var með hnútum með vissu millibili.

Þegar lóðið staðnæmdist við botninn þá var það einfaldlega dregið upp aftur og taldir hve margir hnútar voru á línunni sem útbyrðis fór. Oftar en ekki var dýpið mælt í föðmum (e. fathoms) en það er lengdin á milli tvegga útréttra handa á fullorðnum karlmanni og var lengdin stöðluð við sex fet.

Þegar veiðarfæri voru lögð t.d. net eða lína, þá þurfti að stöðva lögn til þess að mæla dýpið, það er að segja ef lagt var í halla á sjávarbotninum, eins og má lesa hér. Gat þessi verknaður verið ærið tímafrekur sérstaklega ef um mikið dýpi væri að ræða.

Bandaríski tveggja stjörnu aðmírálinn (e. rear admiral) Charles Dwight Sigsbee starfaði á árunum 1875 - 1878 á sjómælingaskipi Bandaríska sjóhersins Blake og á þeim tíma hannaði hann dýptarmælir sem var gufuknúinn og var dýptarmælirinn kenndur við hann. Fyrir utan gufuaflið til þess að taka við erfiðinu af mannshöndinni, þá notaðist Sigsbee við grannan stálvír sem var afurð samstarfs Sigsbee við Alexander Agassiz sem meðal marga afreka átti koparnámur í Michigan og tókst að sannfæra menn um að það væri miklu hentugra að nota stálvír í stað tógs sem unnið var úr hampi. Ekki var þessi uppfinning sérlega handhæg fyrir aðra en sjókortagerðamenn eins og má sjá á þessari mynd. Samt sem áður var þessi aðferð notuð næsta hálfa áratuginn við sjókortagerð.

Það var ekki fyrr en árið 1923 að næsta stig dýptarmælinga varð að veruleika. Nefnilega að gera mælingarnar þráðlausar. Franskir vísindamenn höfðu reyndar tekist að mæla dýpi árið 1919 með því að senda rafbylgju neðansjávar og mæla hve hratt bergmálið komi til baka en sú aðferð hefur lítið breyst síðan þá, þó svo að tæknin til þess að framkalla dýpið síðan á læsilegt form hafi breyst í tímanna rás.

Bandaríski uppfinningamaðurinn Dr. Harvey Heyes hannaði búnað sem mældi dýpið og var sjómælingaskipið Guide fyrir valinu, en það var útbúið bæði þráðlausa Heyes dýptarmælinum og Sigsbee þeim sem notaðist við stálvír og lóð. Var haldið í Norður-Kyrrahafið í gegnum Panamaskurðinn og meðfram Mexíkó og á leiðinni voru gerðar samanburðarrannsóknir milli aðferðanna beggja allt frá 100 - 4617 faðma dýpi og reyndust þær afar mikilvægar til þess að geta mælt hraða hljóðsins í gegnum sjóinn.

Á næstu fáu árum voru öll skip í eigu bandaríska sjóhersins útbúin með Heyes dýptarmæli. Ekki var þó lengi við stöðvað við framþróun á dýptarmælingum og tók Dr. Herbert Grove Dorsey við keflinu og tókst að þróa dýptarmæli sem gat mælt á grunnslóð og var það lítill um sig að hægt væri að setja í lítil skip, eitthvað sem ekki var hægt áður. Nema þá með gamla góða handlóðinu. Um byrjun síðari heimsstyrjaldar voru öll skip sjóhersins bandaríska, stór og smá útbúin dýptarmæli.

Á svipuðum tíma þá var einungis eitt íslenskt skip útbúið dýptarmæli en það var togarinn Garðar GK. Íslenska kvótakerfið var ekki við lýði árið 1930.

sunnudagur, 17. júní 2012

Úr handafli yfir í vélarafl



Fyrstu tilraunir til þess að sigla skipi með vélarafli má rekja allt aftur til aldamótanna 1700, en franski hugvitsmaðurinn Denis Papin átti að hafa gert tilraunir með gufuvél á Fuldafljóti í Þýskalandi. Tengdi hann gufuvélina við árar sem knúðu skipið áfram. Gufuvélin sem um ræddi var í eðli sínu háþrýstipottur sem þekkt er að nota við niðursuðu á matvörum.

Næstu árin var unnið að þróun á gufuaflinu, þó ekki beinlínis til þess að knúa skip áfram, heldur til þess að knýja dælur sem dældu vatni úr kolanámum í Englandi.

Það er ekki fyrr en árið 1783 að franski markgreifinn Jouffroy d'Abbans tekst eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir að knýja skip búið skófluhjólum á hvorri síðu áfram með gufuvél þeirra félaga Boulton og Watt.

Pyroscaphe hét farið, 43 metra langt og 182 rúmlestir. Jómfrúarferð Eldfarsins eins og nafnið útleggst á íslensku stóð yfir í 15 mínútur á Saone ánni í Frakklandi. Ekkert varð úr neinni hagnýttri notkun, þar sem franski ferjumenn fundu uppfinningunni allt til foráttu.

Árið 1830 töldust 250 skip og bátar í heiminum sem voru knúin áfram af gufuaflinu. Þótt ótrúlegt megi virðast þá voru það einmitt sjómenn sjálfir sem voru mótfallnir þessari nýjung og óttuðust þeir mjög að missa vinnuna í hendur vélamanna sem þekktu ekki til sjómennsku.

Þegar hér er komið sögu þá hafa gufuskipin verið ýmist verið knúin áfram með skófluhjólum. Enski bóndinn frá Kent, Francis Pettit Smith gerði þá tilraunir með að knýja gufuskip áfram með snigli Arkimedísar. Höndlaðist honum ekki betur en svo að bátnum hlekktist á og brotnaði snigilinn af mestu af driföxlinum. Við það að styttast þá snérist snigillinn hraðar og þar með jókst hraðinn á skipinu. Gerði Smith tilraunir með ýmsar tegundir af skrúfum og niðurstaðan var blaðskrúfan sem knúið hefur skip og báta hingað til.

Þrátt fyrir að seglið væri farið að víkja fyrir gufunni þá voru það einna helst stór flutningaskip sem vor knúin gufuvélum. Enn sem komið er þá þekktist ekki að fiskiskip væru búin gufuvélum, þar sem þær tóku dýrmætt pláss, bæði vélin sjálf og kolin sem ógrynni þurfti til þess að knýja vélina.

Enskar fiskiskipaútgerðir héldu úti togskútum og með tilkomu þeirrar aðferðar að kæla fiskinn með ís, þá stækkuðu skúturnar samfara því sem fiskiróðurinn lengdist. Ekki þurfti lengur að koma með aflann að landi samdægurs til þess að hann yrði sem ferskastur. Úthöldin urðu lengri og lengri og sérstök skip voru útbúin gufuvélum til þess að flytja ís til fiskiskútuflotans sem var farinn að vera hátt í tvo mánuði í einum túr. 

Ekki datt þeim þó í hug að vélvæða fiskiskúturnar fyrr en árið 1880 að ein fiskiskútan var tekin í slef af ísflutningaskipi. Einhverja hluta vegna var botnvarpan úti og þegar menn komust loksins í það að hala hana inn þá var gríðarlegur afli í trollinu. Hér var ekki aftur snúið og vélvæðing fiskiskipaflotans staðreynd.

Nú víkur sögunni til sögueyjunnar í Norður-Atlantshafi. Dagsetningin er 25. nóvember 1902, Sophus J. Nielsen og Árni Gíslason sigldu 2 brúttólesta fleyinu Stanley fyrir vélarafli vestur á fjörðum með góðum árangri. Dagur árabáta á Íslandi liðinn undir lok og verður að teljast ein merkustu tímamót í útgerðasögu á Íslandi.

Árið 1902 var ekki kvótakerfi við líði á Íslandi.  

Heimild
Angelucci, E., Cucari, A., Þorsteinn Ó, T. og Oddur, T. (1979). Skipabók Fjölva : 1000 skip allra landa, herskip og kaupskip gömul og ný með ýtarlegum tækniupplýsingum. Reykjavík: Fjölvi.

 

fimmtudagur, 7. júní 2012

Framfarir í siglingum og veiðum við Íslandsstrendur eru ekki kvótakerfinu að þakka


Núna upp á síðkastið líður varla dagur án þess að verða var við eintóna kór sveitarfélaga og útgerðarmanna í íslenskum fjölmiðlum um að verði hróflað við núverandi kvótakerfi þá muni það leggja sjávarútveg og bæi í rúst. Flestar ef ekki allar útgerðir munu leggjast af og fjöldi sjómanna og annarra missa vinnuna. Einatt kveður við einn tón í þessu harmakveini útgerðarmanna en það er að núverandi kvótakerfi sé grundvöllur alls hagnaðar sem sjávarútvegurinn hefur útvegað þjóðinni í gegnum aldirnar. Harmsöngurinn virðist vera að ná há C-inu í dag, þann 7. júní, þegar útgerðarmenn hafa skikkað starfsmenn sína til þess að taka þátt í mótmælum á Austurvelli, þar sem reyna skal til hins ýtrasta að halda því óbreyttu sem breyta á.
Ekki er það ætlun mín að velta mér upp úr kostum og ókostum íslenska kvótakerfisins, læt það öðrum eftir, kvótakerfi út af fyrir sig er gott til síns brúks ef vandað sé til verka og gott eftirlit sé með því að ekki sé farið út fyrir leikreglurnar. En að halda því fram að það fiskveiðistjórnunarkerfi sem er núna við lýði á Íslandi sé upphaf alls því góða sem útgerðarmenn hafa notið góðs af hingað til, er langt því frá að vera sannleikurinn.
Ber að nefna uppfinningar eins og bátavélar, vökvadrifnar vindur til þess að létta sjómanninum störfin (og í flestum tilfellum orðið til þess að fækka þeim), dýptarmælinn og hljóðsjánna (sónar), staðsetningartæki (Lóran og GPS), talstöðvar og þannig fram eftir götunum. Allt uppfinningar sem eru erlendar og hafa borist hingað til lands fyrir fæðingu íslenska kvótakerfisins og því argasti dónaskapur að halda því fram að sú hagræðing sem hafi náðst fram við íslenskan sjávarútveg sé algerlega því að þakka.
Mér til gagns og gamans og vonandi öðrum líka ætla ég mér að birta nokkra greinastúfa þar sem þessum uppfinningum verður gerð skil í tímaröð. Takk fyrir í bili.