sunnudagur, 17. júní 2012

Úr handafli yfir í vélarafl



Fyrstu tilraunir til þess að sigla skipi með vélarafli má rekja allt aftur til aldamótanna 1700, en franski hugvitsmaðurinn Denis Papin átti að hafa gert tilraunir með gufuvél á Fuldafljóti í Þýskalandi. Tengdi hann gufuvélina við árar sem knúðu skipið áfram. Gufuvélin sem um ræddi var í eðli sínu háþrýstipottur sem þekkt er að nota við niðursuðu á matvörum.

Næstu árin var unnið að þróun á gufuaflinu, þó ekki beinlínis til þess að knúa skip áfram, heldur til þess að knýja dælur sem dældu vatni úr kolanámum í Englandi.

Það er ekki fyrr en árið 1783 að franski markgreifinn Jouffroy d'Abbans tekst eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir að knýja skip búið skófluhjólum á hvorri síðu áfram með gufuvél þeirra félaga Boulton og Watt.

Pyroscaphe hét farið, 43 metra langt og 182 rúmlestir. Jómfrúarferð Eldfarsins eins og nafnið útleggst á íslensku stóð yfir í 15 mínútur á Saone ánni í Frakklandi. Ekkert varð úr neinni hagnýttri notkun, þar sem franski ferjumenn fundu uppfinningunni allt til foráttu.

Árið 1830 töldust 250 skip og bátar í heiminum sem voru knúin áfram af gufuaflinu. Þótt ótrúlegt megi virðast þá voru það einmitt sjómenn sjálfir sem voru mótfallnir þessari nýjung og óttuðust þeir mjög að missa vinnuna í hendur vélamanna sem þekktu ekki til sjómennsku.

Þegar hér er komið sögu þá hafa gufuskipin verið ýmist verið knúin áfram með skófluhjólum. Enski bóndinn frá Kent, Francis Pettit Smith gerði þá tilraunir með að knýja gufuskip áfram með snigli Arkimedísar. Höndlaðist honum ekki betur en svo að bátnum hlekktist á og brotnaði snigilinn af mestu af driföxlinum. Við það að styttast þá snérist snigillinn hraðar og þar með jókst hraðinn á skipinu. Gerði Smith tilraunir með ýmsar tegundir af skrúfum og niðurstaðan var blaðskrúfan sem knúið hefur skip og báta hingað til.

Þrátt fyrir að seglið væri farið að víkja fyrir gufunni þá voru það einna helst stór flutningaskip sem vor knúin gufuvélum. Enn sem komið er þá þekktist ekki að fiskiskip væru búin gufuvélum, þar sem þær tóku dýrmætt pláss, bæði vélin sjálf og kolin sem ógrynni þurfti til þess að knýja vélina.

Enskar fiskiskipaútgerðir héldu úti togskútum og með tilkomu þeirrar aðferðar að kæla fiskinn með ís, þá stækkuðu skúturnar samfara því sem fiskiróðurinn lengdist. Ekki þurfti lengur að koma með aflann að landi samdægurs til þess að hann yrði sem ferskastur. Úthöldin urðu lengri og lengri og sérstök skip voru útbúin gufuvélum til þess að flytja ís til fiskiskútuflotans sem var farinn að vera hátt í tvo mánuði í einum túr. 

Ekki datt þeim þó í hug að vélvæða fiskiskúturnar fyrr en árið 1880 að ein fiskiskútan var tekin í slef af ísflutningaskipi. Einhverja hluta vegna var botnvarpan úti og þegar menn komust loksins í það að hala hana inn þá var gríðarlegur afli í trollinu. Hér var ekki aftur snúið og vélvæðing fiskiskipaflotans staðreynd.

Nú víkur sögunni til sögueyjunnar í Norður-Atlantshafi. Dagsetningin er 25. nóvember 1902, Sophus J. Nielsen og Árni Gíslason sigldu 2 brúttólesta fleyinu Stanley fyrir vélarafli vestur á fjörðum með góðum árangri. Dagur árabáta á Íslandi liðinn undir lok og verður að teljast ein merkustu tímamót í útgerðasögu á Íslandi.

Árið 1902 var ekki kvótakerfi við líði á Íslandi.  

Heimild
Angelucci, E., Cucari, A., Þorsteinn Ó, T. og Oddur, T. (1979). Skipabók Fjölva : 1000 skip allra landa, herskip og kaupskip gömul og ný með ýtarlegum tækniupplýsingum. Reykjavík: Fjölvi.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli