fimmtudagur, 7. júní 2012

Framfarir í siglingum og veiðum við Íslandsstrendur eru ekki kvótakerfinu að þakka


Núna upp á síðkastið líður varla dagur án þess að verða var við eintóna kór sveitarfélaga og útgerðarmanna í íslenskum fjölmiðlum um að verði hróflað við núverandi kvótakerfi þá muni það leggja sjávarútveg og bæi í rúst. Flestar ef ekki allar útgerðir munu leggjast af og fjöldi sjómanna og annarra missa vinnuna. Einatt kveður við einn tón í þessu harmakveini útgerðarmanna en það er að núverandi kvótakerfi sé grundvöllur alls hagnaðar sem sjávarútvegurinn hefur útvegað þjóðinni í gegnum aldirnar. Harmsöngurinn virðist vera að ná há C-inu í dag, þann 7. júní, þegar útgerðarmenn hafa skikkað starfsmenn sína til þess að taka þátt í mótmælum á Austurvelli, þar sem reyna skal til hins ýtrasta að halda því óbreyttu sem breyta á.
Ekki er það ætlun mín að velta mér upp úr kostum og ókostum íslenska kvótakerfisins, læt það öðrum eftir, kvótakerfi út af fyrir sig er gott til síns brúks ef vandað sé til verka og gott eftirlit sé með því að ekki sé farið út fyrir leikreglurnar. En að halda því fram að það fiskveiðistjórnunarkerfi sem er núna við lýði á Íslandi sé upphaf alls því góða sem útgerðarmenn hafa notið góðs af hingað til, er langt því frá að vera sannleikurinn.
Ber að nefna uppfinningar eins og bátavélar, vökvadrifnar vindur til þess að létta sjómanninum störfin (og í flestum tilfellum orðið til þess að fækka þeim), dýptarmælinn og hljóðsjánna (sónar), staðsetningartæki (Lóran og GPS), talstöðvar og þannig fram eftir götunum. Allt uppfinningar sem eru erlendar og hafa borist hingað til lands fyrir fæðingu íslenska kvótakerfisins og því argasti dónaskapur að halda því fram að sú hagræðing sem hafi náðst fram við íslenskan sjávarútveg sé algerlega því að þakka.
Mér til gagns og gamans og vonandi öðrum líka ætla ég mér að birta nokkra greinastúfa þar sem þessum uppfinningum verður gerð skil í tímaröð. Takk fyrir í bili.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli