föstudagur, 30. ágúst 2013

Leyndarmál upplýst

Fyrir all nokkru síðan kom út afmælisblað Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði eða á 60 ára afmæli sveitarinnar sem væntanlega hefði þá verið árið 1995. Í afmælisblaðinu mátti lesa sögu af því þegar Sigurði Bjarnasyni GK var sökkt um 70 sjómílur vestur af Reykjanesi. Höfundur kom ekki fram undir nafni. Það upplýsist hér með að sá sem heldur út þessari bloggsíðu er ábyrgur fyrir innihaldi sögunnar.




sunnudagur, 11. ágúst 2013

Af hverju forvarnir?

Ímyndið ykkur meðalstórt þorp sem liggur við árósa. Daglegt líf er í föstum skorðum, þar til dag einn er öskrað á hjálp. Þorpsbúar líta upp frá verkum sínum og sjá þá til manns sem kemur fljótandi niður ánna. Einn þorpsbúa, syndur eins og selur, hugsar sig ekki um heldur rífur sig úr vinnugallanum og hendir sér í ánna til bjargar manninum.

Björgunin gekk að óskum en varla var björgunarmaðurinn búinn að kasta mæðinni þegar aftur heyrist kallað á hjálp frá öðrum manni sem kom fljótandi niður ánna. Aftur rýkur björgunarmaðurinn af stað og hendir sér á nýjan leik í ánna. En á meðan á því stendur, heyrist í þriðja manninum kalla á hjálp.

Annar hugulsamur þorpsbúi tekur að sér að bjarga þessum manni. En hrópum á hjálp fer fjölgandi.

Áður en varir, snýst allur dagurinn hjá þorpsbúum um það að bjarga fólki úr ánni og annað venjubundið daglegt starf liggur niðri á meðan. Alltaf fjölgar þeim sem eru hjálpar þurfi en því miður þrátt fyrir mikla viðleitni þorpsbúa þá fjölgar þeim líka sem ekki verður hægt að bjarga.

Boðskapur þessarar sögu er á þá leið að þrátt fyrir mikla hetjudáð þorpsbúa til bjargar fólki í sárri neyð, þá datt engum þeirra í hug að komast að því af hverju svona margt fólk féll í ánna eða koma í veg fyrir það að það gerðist.Mögulegt er að björgunarstörf hefðu borið meiri árangur ef það hefði verið gert og eitthvað gert til þess að koma í veg fyrir það.

Um það snúast forvarnir. Að koma í veg fyrir slys og alls kyns vandamál.

Tökum höndum saman og borgum núna en ekki eftir á þegar skaðinn er skeður. Það er einfaldlega ódýrara að nýta sér tækifærið nú en margfalt dýrara þegar tækifærið er runnið úr manns greipum.