föstudagur, 27. júlí 2012

Sam Tillen svarað


Enski knattspyrnumaðurinn Sam Tillen kemur oft og iðulega með góða pistla á www.fotbolti.net  og gaman hefur mér fundist að lesa pistlana hans hingað til. Þó verð ég að fetta fingur út í síðasta pistil hans að knattspyrnumenn séu ekki fyrirmyndir annarra og sér í lagi barna „og setja ekki staðal í siðferðiskennd“ (Tillen, 2012) þegar á það var minnst í breskum sjónvarpsþætti, að oflaunaðir og [fordekraðir] knattspyrnumenn höguðu sér eins og hálfvitar innan sem utan vallar þegar þeir í raun og veru ættu að gera sér grein fyrir því að þeir væru einmitt fyrirmyndir.

Þegar kemur að uppeldi barna þá hefur allt áhrif, bæði góð eða slæm, hvaða nafni sem það gegnir. Menn og konur sem hafa knattspyrnu (og öðrum íþróttum) að aðalatvinnu eru (því ver og miður í mörgum tilfellum) fyrirmyndir barna og unglinga rétt eins og allar aðrar hliðar margbreytileika lífsins. Sam Tillen tekur sem dæmi Paul nokkurn Gascoigne í pistli sínum, enskan atvinnumann í knattspyrnu, sem sinn innblástur en samt þó ekki sem eiginlega fyrirmynd (Tillen, 2012).
Gazza eins og hann var kallaður, var jafnþekktur fyrir slæmu hliðar sínar rétt eins og að eltast við leðurtuðruna, sem margir elska að annað hvort að gera (hvort sem þeir fá borgað fyrir það eður ei) eða að horfa á atvinnumenn gera það (og jafnvel borga fyrir það mánaðarlaun sín). Gazza hóf feril sinn sem atvinnumaður í unglingaliði Newcastle 1983 þá 16 ára gamall. Eitthvað sem gamall kennari hans sagði að möguleikarnir á því að það gerðist væru einn á móti milljón (Gascoigne og  Davies, 2004). 

Þrátt fyrir að vera ungur að aldri þá var Gazza hokinn af reynslu og henni ekkert endilega svo góðri og gæfulegri. Heimilisaðstæður voru ekki góðar, fjölskyldan bjó þröngt í húsnæði á vegum borgarinnar, flutti oft og því miður var fjölskyldan ekki laus við heimilisofbeldi. Faðir hans varð óvinnufær vegna heilablóðfalls og Gazza varð vitni að því þegar yngri bróðir eins vinar hans lést þegar ekið var á hann. Fyrsta áfengissopann smakkaði hann 14 ára gamall og varð veikur af og lofaði sjálfum sér að smakka aldrei áfengi aftur, loforð sem hann náði að halda í heil fjögur ár. Ekki leið á löngu að hann var farinn að stela úr búðum til þess að geta fjármagnað fíkn sína í spilakassa og á einhverjum tímapunkti greindist hann með þráhyggjuröskun. Þrátt fyrir þessi áföll var hann fjandi góður í knattspyrnu, sérstaklega á sínum yngri árum og þar með væntanlega mörgum fyrirmynd og innblástur en er á ferilinn leið hallaði undan fæti hjá honum og þekktari varð hann fyrir ofbeldi og misnotkun áfengis og eiturlyfja meðal annars (Stewart, 2008). Væntanlega þá blásið fáum byr undir brjóst með þeirri hegðun sinni, en engu að síður, viss fyrirmynd.

Sam Tillen benti á að hann hafi notið góðs af því að eiga foreldra sem kenndu honum að þekkja muninn á réttu og röngu og nefnir að „ekki eitt augnablik hugsaði ég um að apa þetta upp eftir honum“, þrátt fyrir að hann hafi sótt innblástur til Gazza (Tillen, 2012). En því miður, búa ekki öll börn svo vel að eiga góða foreldra sem geta kennt börnum sínum góða siði, hvað sé rétt og hvað sé rangt og þar fram eftir götunum. Börn sem fæðast í þennan heim geta lent í því að eiga óhæfa foreldra, eða þá að foreldrar vilja þau ekki og gefa þau til ættleiðingar eða yfirgefa þau jafnvel síðar meir á lífsleiðinni. Slys geta gerst og foreldrar falla frá um aldur fram frá börnum sínum og svo fram eftir götunum. Sorglegt en engu að síður staðreynd.

Börn læra það sem fyrir þeim er haft og hvað ungur nemur, gamall temur. Þessi tvö spakmæli sem má finna reglulega í páskaeggjum ár hvert eru sígild og eiga alltaf við. Hvort sem maður á góða foreldra eða ekki, eða foreldra yfir höfuð. Ef foreldra skortir þá leitar maður einfaldlega annað og þá væri nú gott ef það væru til góðar fyrirmyndir til þess að líta upp til, líka í atvinnumennsku í knattspyrnu. Það þarf nefnilega heilt þorp til þess að ala upp barn og keðjan verður aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn í henni leyfir.

Það ættu hálaunaðir sem illa launaðir atvinnumenn, læsir sem ólæsir, í knattspyrnu að huga að, áður en þeir gera einhvern skandal af sér, innan vallar sem utan.


Heimildir  
Gascoigne, P. og Davies, H. (2004). Gazza : my story. London :: Headline.
Stewart, R. (2008). The life and times of Paul Gascoigne - Telegraph.  af http://www.telegraph.co.uk/sport/football/2292333/The-life-and-times-of-Paul-Gascoigne.html
Tillen, S. (2012). Fótboltamenn eru ekki fyrirmyndir barna. 2012(24. júlí).  af http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=130085

Engin ummæli:

Skrifa ummæli