mánudagur, 23. september 2013

Forgangsröðum rétt

Það er ekki ofsögum sagt að á LSH er afburðastarfsfólk til staðar þegar eitthvað bjátar á, fagfólk sem er fært í sínu starfi. Fjölskyldunni minni fjölgaði óvænt um eina stúlku, langt fyrir tímann, nánar til tekið eftir rúmlega 26 vikna meðgöngu . Hún er núna í góðum höndum hjá starfsfólkinu á Vökudeildinni og plumar sig vel miðað við aðstæður.

Þegar maður er í svona stöðu þá getur maður ekkert annað en viðurkennt vanmátt sinn, það er bara einfaldlega hrikaleg tilfinning að geta ekkert gert nema að bíða og sjá til hvað gerist. Það gerir mann eiginlega ekkert annað en fúlan í skapi.

Fúlan út í ráðamenn sem forgangsraða þannig að það þarf söfnunarátök til þess að bæta tækjakost á LSH og öðrum heilbrigðisstofnunum um land allt. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem dæmi er meira og minna lokuð. Ekki fæst fjármagn til þess að halda úti skurðstofu. Svona fréttir má örugglega finna úr öðrum landshlutum.

Á sama tíma eru þingmenn landsins á flakki um víða veröld, eitthvað kostar það nú. Boruð eru göng í gegnum fjöll og firnindi, fyrir óhemju upphæðir. Útvegsmenn sem sitja í einokunarstöðu að auðlind þjóðarinnar fá gefins milljarða frá núverandi ríkisstjórn þegar það var drifið í gegnum þingið að lækka auðlindagjaldið.

Ég er miklu meira en til í að gefa mína vinnu og spila frítt til styrktar þjóðvegauppbyggingu, ferðalögum þingmanna þegar þeirra er ÞÖRF og svo greyið LÍÚ fái nú salt í grautinn sinn.

ÞAÐ Á EKKI AÐ ÞURFA AÐ SAFNA ÖLMUSUM TIL ÞESS AÐ REKA HEILBRIGÐISSTOFNUN!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli