sunnudagur, 2. júní 2013

Hvað er tómstunda- og félagsmálafræði?

Það er ekki úr vegi fyrst maður er rétt að klára fimm ára háskólanám (3 ár B.A. og 2 ár M.Ed) í tómstunda- og félagsmálafræði að velta fyrir sér svarinu við þeirri spurningu sem dynur á mann á mannamótum, hvað er tómstunda- og félagsmálafræði?

Áður en spurningunni verður svarað verður að byrja á því að útskýra hvað tómstundir og tómstundastarf er og tilurð þess náms. Tómstundir er skilgreint sem sá tími sem maður eyðir í skipulagt starf eða afþreyingu og fer fram í frítíma hvers og eins. Frítími er aftur á móti sá tími sem maður er ekki að sinna vinnunni sinni eða (skyldu)námi og uppfylla líkamlegar og andlegar þarfir, eins og að matast, sofa, þrífa sig og sinna heilsunni (Vanda Sigurgeirsdóttir, 2010).

Síðan angar iðnbyltingarinnar náðu til Íslands og gerðu meðal annars út af við þá baðstofumenningu sem var við lýði áratugum saman frá upphafi Íslandsbyggðar, þar sem heilu kynslóðirnar eyddu kvöldunum við allskyns handavinnu, húslestur, spil og söng, þá hefur frítími fólks aukist og þá sérstaklega yngstu kynslóðarinnar sem áður fyrr tók til hendinni við húsverkin til jafns við þá fullorðnu. Við það að flytjast í þéttbýli þá myndaðist tómarúm sem umlukti börn og unglinga. Koma þurfti upp húsnæði og útvega fullorðna fólkinu atvinnu og var það í algerum forgangi vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Menntamál voru því sett í þriðja sæti, þó það ofarlega eingöngu vegna þess að við að borgarvæðast krafðist nýrrar þekkingar og vinnubragða. Allt annað sat á hakanum og þar á meðal ungviðið sem var hvernig sem á það er litið, afgangsstærð í samfélaginu. Í síbreytilegum heimi þar sem stefnubreyting verður daglega, einfaldlega það sem er „inn“ í dag er „út“ á morgun, eiga þeir sem eldri eru, erfitt með að fylgja þeirri þróun og eru jafnan mörgum skrefum á eftir. Það sem liggur þar að baki er að æska uppalenda er í raun og veru úrelt fyrirbrigði þegar kemur að uppeldi þeirra eigin barna. Ekki er hægt að heimfæra reynslu og þekkinguna yfir á næstu kynslóð, því í nútímaþjóðfélagi gerast hlutirnir hratt og nýjar hættur leynast víða sem hugsanlega voru ekki áður. Sem svar við þeirri þróun var komið á fót sérstökum félagsmiðstöðvum unglinga og var litið á þær sem visst öryggistæki, þar sem hægt væri að hafa eftirlit með unglingunum og beina þeim á heilbrigðari og skynsamari brautir (Árni Guðmundsson, 2006).
Með tilkomu iðnbyltingarinnar breyttist líf fólks. Í stað þess að vinna hátt í 70 stunda vinnuviku, þá er normið í dag 35 - 40. Tilkoma alls kyns tækni, tækja og tóla varð til þess að létta mannshöndinni verk sem áður voru erfið og tóku mikinn tíma, þar með talið heimilisstörf. Lífsgæði fólks jókst og t.d. má nefna að í Bandaríkjum Norður-Ameríku þrefaldaðist fjöldi þeirra sem voru á eftirlaunaaldri eftir aldamótin 1900 (Leitner og Leitner, 2003). Þess má geta að í framhaldi af því að ef mannfjöldaspá Hagstofu Íslands stenst, þá er áætlað að fjöldi íslendinga á eftirlaunaaldri verði hátt í 100.000 árið 2060 (Hagstofa Íslands. e.d).

Samkvæmt Weiskopf (1982) þá eyðir meðalmaður hátt í 27 árum af ævi sinni í tómstundir, það er að segja ef við miðum við að meðalmaðurinn nái 70 ára aldri. Af þessum 27 árum eyðir hann síðan um það bil 10 árum í sjónvarpsgláp og fyrst við erum farin að tala um sjónvarpsgláp, þá eyða börn á aldrinum 2 - 5 ára 25 - 32 klukkustundum á viku fyrir framan sjónvarpið (Pawlowski, 2000).
Ekki hefur verið um það deilt að hófleg líkamsrækt hressir mannsins hjarta og varla væri líkamsrækt innleidd í námsskrá grunn- og framhaldsskóla á Íslandi sem og annars staðar í hinum siðvædda heimi ef svo væri ekki. Það á engu síður við um tómstundir og tómstundastarf ýmis konar. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi getur haft góð áhrif á heilsu fólks, bæði andlega og líkamlega (Caldwell, 2005, Siegenthaler, 1997). Skipulagt tómstundastarf hefur einnig forvarnagildi gagnvart unglingum (Þórólfur Þórlindsson et al, 1998).  
Af þessu má sjá að skipulagt tómstundastarf er vel til þess fallið til þess að auka almennt heilbrigði fólks og lífshamingju til lengri tíma litið. En til þess að þeim markmiðum sé náð þá hefur myndast þörf fyrir fagfólk sem sérhæfir sig í vettvangi frítímans og nám í tómstunda- og félagsmálafræði er eitt svar við þeirri þörf. Í boði er nám í tómstunda- og félagsmálafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og skiptist í þriggja ára B.A.-nám og í framhaldi af því tveggja ára M.Ed.-nám. Tómstunda- og félagsmálafræðin er í raun og veru þverfaglegt nám og eru mörg námskeið sameiginleg með öðrum námsleiðum, t.d. kennaranámi og þroskaþjálfanámi. Námið inniheldur sálfræði, siðfræði, aðferðafræði ýmis konar, félagsfræði, verkefna- og viðburðastjórnun, stjórnun og rekstur, útivist og útinám, fyrir utan sjálfa tómstundir barna, unglinga og aldraðra svo fátt eitt sé nefnt. Í boði er bæði staðnám og fjarnám fyrir þá sem kjósa að sitja námið meðfram vinnu.

Vonandi er einhver aðeins vísari um hvað er tómstunda- og félagsmálafræði eftir þennan lestur. 
Heimildir
Árni Guðmundsson (2006). Saga félagsmiðstöðva í Reykjavík 1942-1992.  Hafnarfjörður: höf.
Caldwell, L.L. (2005): Leisure and health: why is leisure therapeutic?, British Journal of Guidance & Counselling, 33:1, 7-26. Sótt þann 29. maí 2013 af http://dx.doi.org/10.1080/03069880412331335939
Leitner, M. J. og Leitner, S. F. (2003). Leisure enhancement. Binghamton, NY : Northam :: Haworth ; Roundhouse.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2010). Skilgreining á hugtakinu tómstundir. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sótt þann 29. maí 2013 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/025.pdf
Pawlowski, C. (2000). Glued to the tube: The threat of television addicttion to today's family. Naperville, IL: Sourcebooks, Inc
Siegenthaler, K. L. (1997). Health benefits of leisure, Parks and recreation, 32(1), 24, 26, 28, 30-31 

Weiskopf, D. (1982). Recreation and leisure: Improving the quality of life. Boston: Allyn and Bacon
Þórólfur Þórlindsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Jón Gunnar Bernburg og Viðar Halldórsson. (1998). Vímuefnaneysla ungs fólks : umhverfi og aðstæður. Reykjavík: Rannsóknastofnun uppeldismála- og menntamála.  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli