laugardagur, 8. júní 2013

Tómstundamenntum þjóðina!

Eitt sinn þegar ég var að gramsa á internetinu vegna verkefnis sem ég þurfti að skila af mér í háskólanáminu, þá rakst ég á frétt í Viðskiptablaðinu frá 1. janúar 2010 og nefnist "Kostnaður vegna öldrunar hleðst upp" og byggðist hún meðal annars á grein sem má finna á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þar kemur fram meðal annars að fjöldi íbúa á eftirlaunaaldri kemur til með að tvöfaldast á næstu fjórum áratugum í hlutfalli við fólk á vinnumarkaðsaldri ef við getum kallað það svo, það er að segja í Evrópu. Vegna þessa munu útgjöld vegna heilbrigðis- og lífeyrismála stóraukast og Framkvæmdastjórn ESB áætlar að þau muni aukast að jafnaði 3.4% af landsframleiðslu á ári, 2.3% vegna lífeyris og 1.1% vegna heilbrigðis og umönnunar aldraðra. 

Verg landsframleiðsla á Íslandi í krónum talið var 1.537.106.000.000 (rúmlega 1.537 milljarðar ISK). Ef við tökum lífeyrinn út og reiknum bara með heilbrigðismálum og umönnun aldraðra þá gæti kostnaðurinn verið um það bil 1.7 milljarður ISK sem hann hækkar ár frá ári. Heildarútgjöld til þjónustu vegna aldraðra í árslok 2010 var 7.209.000.000 kr (rúmlega 7 milljarðar ISK).

Í framhaldinu af þessu fór ég á vef Hagstofu Íslands og kannaði fjölda aldraðra á Íslandi. Í ársbyrjun 2010 voru íslendingar 65 ára og eldri 38.069 manns, þar af voru 3.079 manns sem þurftu að leita til hjúkrunar- og dvalarheimila eða á öldrunar- og hjúkrunarlækningarými sjúkrahúsanna, hlutfall þeirra af heildarfjölda einstaklinga yfir 65 ára aldri er því 8%.

Ef við gefum okkur að þetta hlutfall muni haldast óbreytt (8%) og heimfærum það upp á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, þá má áætla að fjöldi þeirra sem þurfa að leita til öldrunar- og hjúkrunarlækningarýma og dvalarheimila verði hátt í 8.000 manns árið 2060, miðað við að fjöldi íslendinga 65 ára og eldri verða 110.964.   

Hafi menn haft ærna ástæðu til þess að kvarta undan ICESAVE-reikningnum á sínum tíma, þá er komin hér nægjanleg góð ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af framtíð hagkerfis Íslands.

En hvað er ég að tuða, tómstunda- og félagsmálafræðingurinn um hagtölur og hagkerfi Íslands?

Ástæðan er einfaldlega sú að með þátttöku í  heilbrigðum skipulögðum tómstundum viðheldur maður félagslegri færni, viðheldur andlegu og líkamlegu heilbrigði og þar með er kannski hægt að minnka líkurnar á því að maður þurfi á dýrri þjónustu á að halda þegar á efri árin eru komið.

Grískir heimspekingar forðum daga bentu á að ef það væri vinnan sem göfgaði manninn, þá væru það tómstundirnar sem mótuðu hann. Það er, hvernig einstaklingurinn nýtir frítíma sinn, getur haft gríðarleg áhrif á hvernig hann mótast sem samfélagsþegn. Lausnin er því að tómstundamennta þjóðina með því markmiði að auka ánægju hvers og eins einstaklings í frítíma þeirra. 

Með hugtakinu tómstundamenntun er átt við ferli sem á að leiða til þess að einstaklingurinn nái að hámarka ánægju sína í tómstundum sínum. Það er að segja renna styrkari stoðum undir einstaklinginn þannig að hann geti valið sér tómstund við hæfi og þroskast á þann veg að útkoman verði öllu samfélaginu til góða á endanum. Koma ætti í námsskrá grunnskólanna tómstundamenntun. Í gegnum tómstundamenntun má t.d. auka trúnna á sjálfan sig og eigin getu, sem gerir manni jafnvel kleift að standast ýmsar freistingar sem eru í boði í samfélaginu í dag og ógna jafnvel velferð þess. Tómstundamenntun getur líka nýst við starfslok síðar á ævinni, þegar maður stendur frammi fyrir þeim tímamótum að hafa allt í einu nægan tíma til þess að gera allt sem manni langar til að gera, en hefur ekki hugmynd um hvað manni langar eða hvað er í boði.

Tómstunda- og félagsmálafræðingar á Íslandi telja nú vel fyrir hundraðið. Er ekki kominn tími á að nýta sér þeirra sérþekkingu?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli