föstudagur, 13. nóvember 2015

Áfengi er engin venjuleg neysluvara!

Kveikjan að þessari færslu er frumvarp á Alþingi, þar sem leyft yrði, ef samþykkt yrði, að selja áfengi í matvörubúðum meðal annars. Færslan er jafnframt verkefni í námskeiðinu Áhrifavaldar heilbrigðis, forvarnir og heilsuefling við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Samkvæmt Embætti landlæknis voru seldir 7.18 L af hreinum vínanda á hvert mannsbarn á Íslandi 15 ára og eldri. Sala í Fríhöfn og það sem áhafnir flugvéla og skipa mega taka með sér utanlands frá er ekki talið með. Samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu Íslands voru íbúar á Íslandi 15 ára og eldri árið 2014 258.861 manns. Það gera því 1.858.629,16 L í heildina af hreinum vínanda á árinu 2014.

Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), Global Burden of Disease Study, mátti rekja 3.3 milljón dauðsföll á árinu 2012 til neyslu á áfengi og 139 milljón glötuð góð æviár (DALY) vegna ótímabærra dauðdaga. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að 1 af hverjum 10 ótímabærum dauðsföllum og sjúkdómum má rekja til hættulegrar áfengisneyslu. Ef fullorðinn karlmaður drekkur meira en 50 einingar af áfengi á viku og fullorðin kona meira en 35 einingar þá er áfengisneyslan orðin hættuleg viðkomandi. Ein eining af áfengi er: einfaldur af sterku áfengi, léttvínsglas, 250 ml af sterkum bjór eða 500 ml af venjulegum bjór.

Rannsóknir hafa sýnt að því meira heildarmagn af áfengi sem er neytt er ávísun á meira samfélagslegt tjón og skiptir þá engu í hvaða formi áfengis er neytt. Vínglas, 250 ml af bjór eða einn einfaldur af sterku áfengi hafa sömu áhrif á heilsu. Mikilli áfengisneyslu fylgir ekki bara einstaklingsbundin vandamál á borð við skorpulifur og krabbamein heldur samfélagsleg einnig og jafnframt mikill samfélagslegur kostnaður, bæði beinn og óbeinn. Til þess að meta kostnað sem fylgir áfengisneyslu má ekki einblína á beina kostnaðinn (t.d. meðferð, sjúkrahúslega, lyfjakostnaður) heldur verður að taka með í reikninginn þann óbeina líka (frávera frá vinnu, velferðarmál, félagsmál, heilbrigðismál og þjáning sem dæmi).

Hvað varðar hinn samfélagslega kostnað þá gefa þeir Anderson og Baumberg (2006) sér þær hóflegu forsendur að hlutfall beins kostnaðar í Evrópusambandinu vegna áfengisneyslu árið 2003, hafi verið 1.3% og óbeinn 1.9% af vergri þjóðarframleiðslu. Verg þjóðarframleiðsla á Íslandi árið 2014 var 1.989.260.000.000 ISK samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. 

Ef við heimfærum þessa prósentutölu yfir á Ísland, þá er hlutfall beins kostnaðar 25.860.380.000 ISK og sá óbeini 37.795.940.000 ISK. Þetta eru að sjálfsögðu ekki nákvæmir útreikningar en gefa okkur það samt að óbeinn kostnaður er talsvert hærri en beinn kostnaður. Samanlagður kostnaður (beinn og óbeinn) er því 63.656.320.000 ISK eða rétt rúmlega 60 milljarðar ISK. 

Til þess að gera okkur grein fyrir því um hve háar tölur eru um að ræða þá þurfum við að setja þær í samhengi við það sem við þekkjum.

Samkvæmt epli.is þá kostar dýrasta Mac pro borðtölvan 819.990 kr. Fyrir þessa upphæð mætti kaupa 77.630 tölvur og nýta í eitthvað þarft málefni. Eða gríðarlegt magn af i-phone eða i-pad.


Dýrasti Lexus bíllinn samkvæmt verðlista íslenska umboðsins er á 28.890.000 kr án aukahluta. Hægt væri að versla 2.203 eintök fyrir þessa upphæð og átt einhvern afgang sem væri hægt að nýta í eldsneytiskaup. Eða gefa almenningi kost á að ferðast frítt með almenningssamgöngum. Alltaf.

Varðskipið Þór kostaði ríkissjóð fullbúinn við afhendingu miðað við gengiskráningu Seðlabanka Íslands dagsins í dag heilar 4.062.716.601 ISK. Miðað við samfélagslega kostnaðinn vegna áfengisneyslu á Íslandi þá hefðum við getað splæst í heil 15 varðskip af sömu stærð.

Samkvæmt úttekt innanríkisráðuneytisins frá árinu 2006 varðandi kaup á fullkomnum björgunarþyrlum þá væri áætlaður kostnaður um það bil 1.800.000.000 ISK. Gætum keypt heil 35 stykki fyrir þessa upphæð.

Mögulegt er að í öllum tilfellum hér talið upp að framan væri hægt að fá góðan magnafslátt eins og þekkist víða í viðskiptum.

Að sjálfsögðu þarf að taka þessar upphæðir með fyrirvara. Ég er ekki stærðfræðingur eða hagfræðingur og væntanlega eru einhverjar þekktar reikniformúlur sem liggja að baki sem eru á annarra manna færi að reikna út en mín. En engu að síður eru hér að ræða gríðarlega háar upphæðir á hverju ári að ræða og væntanlega stjarnfræðilega háar ef við tækjum heilan áratug samtals. Gaman væri ef fleiri tækju upp á því hvað væri hægt að versla eða gera fyrir þessa upphæð sem felur í sér beinan og óbeinan kostnað af áfengisneyslu.

Að lokum vil ég nefna að einokun sölu samfara háu verði (via skattlagningu) er talið einna best fallið til þess að koma í veg fyrir hættulega neyslu á áfengi samkvæmt Babor og félögum. Þannig að eitthvað erum við Íslendingar að gera rétt. Það væri því glapræði að snúa við blaðinu og auka aðgengi að áfengi.

Reynum að opna augu þeirra þingmanna sem lögðu frumvarpið fram í þeirri von að það verði dregið til baka. Það er nefnilega mikið í húfi. Áfengi er engin venjuleg neysluvara - og ætti því ekki að vera seld í venjulegum verslunum!


Heimildir
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO). (2014). Global status on alcohol and health 2014. Sótt af vefslóðinni http://apps.who.int/iris/bitstream/10665/112736/1/9789240692763_eng.pdf


Anderson, P. & Baumberg, B. (2006), Alcohol in Europe: a public health perspective. A report for the European Commission, Institute of Alcohol Studies, UK. Sótt af vefslóðinni http://ec.europa.eu/health-eu/doc/alcoholineurope_en.zip

Babor T., Caetano R., Casswell S., Edwards G., Giesbrecht N., Graham K. et al. (2010). Alcohol: No Ordinary Commodity—Research and Public Policy. Oxford, UK: Oxford University Press (íslenskan útdrátt má finna hér: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf

Embætti landlæknis. (2014). Áfengissala 1986-2014. Sótt af vefslóðinni http://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item15341/

Embætti landlæknis. (2014). Rannsóknarskýrslur um áfengismál - samantekt. Sótt af vefslóðinni http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item24904/Rannsóknarskýrslur%20um%20áfengismál_samantekt.pdf

Hagstofa Íslands. (2015). Landsframleiðsla og þjóðartekjur. Sótt af vefslóðinni http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Efnahagur/Efnahagur__thjodhagsreikningar__landsframl__1_landsframleidsla/THJ01102.px/table/tableViewLayout1/?rxid=496a3411-6246-426e-8379-ec5451b5667d

Hagstofa Íslands. (2015). Mannfjöldi eftir kyni og aldri. Sótt af vefslóðinni http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__mannfjoldi__1_yfirlit__Yfirlit/MAN00101.px/table/tableViewLayout1/?rxid=cddcbd24-1a46-41e2-b841-ca7cf5fb085a

Innanríkisráðuneytið. (2006). Þyrlubjörgunarþjónusta á Íslandi - tillögur að framtíðarskipulagi. Sótt af vefslóðinni
http://www.innanrikisraduneyti.is/media/Skyrslur/thyrluskyrsla.pdf

Lexus Bílar Evrópu. (2015). Verðlisti. Sótt af vefslóðinni http://d3rvezpmgp265q.cloudfront.net/lexusone/lexisis/LEXUS_verdlisti_OKT_2015_tcm-3108-525042.pdf?_ga=1.174999654.594007331.1447371667

Norstrom, T. & Skog, O-J. Alcohol and mortality. Addiction 2001 96 Supplement 1 S5-S18. Sótt af vefslóðinni http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1046/j.1360-0443.96.1s1.5.x/epdf



mánudagur, 23. september 2013

Forgangsröðum rétt

Það er ekki ofsögum sagt að á LSH er afburðastarfsfólk til staðar þegar eitthvað bjátar á, fagfólk sem er fært í sínu starfi. Fjölskyldunni minni fjölgaði óvænt um eina stúlku, langt fyrir tímann, nánar til tekið eftir rúmlega 26 vikna meðgöngu . Hún er núna í góðum höndum hjá starfsfólkinu á Vökudeildinni og plumar sig vel miðað við aðstæður.

Þegar maður er í svona stöðu þá getur maður ekkert annað en viðurkennt vanmátt sinn, það er bara einfaldlega hrikaleg tilfinning að geta ekkert gert nema að bíða og sjá til hvað gerist. Það gerir mann eiginlega ekkert annað en fúlan í skapi.

Fúlan út í ráðamenn sem forgangsraða þannig að það þarf söfnunarátök til þess að bæta tækjakost á LSH og öðrum heilbrigðisstofnunum um land allt. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem dæmi er meira og minna lokuð. Ekki fæst fjármagn til þess að halda úti skurðstofu. Svona fréttir má örugglega finna úr öðrum landshlutum.

Á sama tíma eru þingmenn landsins á flakki um víða veröld, eitthvað kostar það nú. Boruð eru göng í gegnum fjöll og firnindi, fyrir óhemju upphæðir. Útvegsmenn sem sitja í einokunarstöðu að auðlind þjóðarinnar fá gefins milljarða frá núverandi ríkisstjórn þegar það var drifið í gegnum þingið að lækka auðlindagjaldið.

Ég er miklu meira en til í að gefa mína vinnu og spila frítt til styrktar þjóðvegauppbyggingu, ferðalögum þingmanna þegar þeirra er ÞÖRF og svo greyið LÍÚ fái nú salt í grautinn sinn.

ÞAÐ Á EKKI AÐ ÞURFA AÐ SAFNA ÖLMUSUM TIL ÞESS AÐ REKA HEILBRIGÐISSTOFNUN!

föstudagur, 30. ágúst 2013

Leyndarmál upplýst

Fyrir all nokkru síðan kom út afmælisblað Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði eða á 60 ára afmæli sveitarinnar sem væntanlega hefði þá verið árið 1995. Í afmælisblaðinu mátti lesa sögu af því þegar Sigurði Bjarnasyni GK var sökkt um 70 sjómílur vestur af Reykjanesi. Höfundur kom ekki fram undir nafni. Það upplýsist hér með að sá sem heldur út þessari bloggsíðu er ábyrgur fyrir innihaldi sögunnar.




sunnudagur, 11. ágúst 2013

Af hverju forvarnir?

Ímyndið ykkur meðalstórt þorp sem liggur við árósa. Daglegt líf er í föstum skorðum, þar til dag einn er öskrað á hjálp. Þorpsbúar líta upp frá verkum sínum og sjá þá til manns sem kemur fljótandi niður ánna. Einn þorpsbúa, syndur eins og selur, hugsar sig ekki um heldur rífur sig úr vinnugallanum og hendir sér í ánna til bjargar manninum.

Björgunin gekk að óskum en varla var björgunarmaðurinn búinn að kasta mæðinni þegar aftur heyrist kallað á hjálp frá öðrum manni sem kom fljótandi niður ánna. Aftur rýkur björgunarmaðurinn af stað og hendir sér á nýjan leik í ánna. En á meðan á því stendur, heyrist í þriðja manninum kalla á hjálp.

Annar hugulsamur þorpsbúi tekur að sér að bjarga þessum manni. En hrópum á hjálp fer fjölgandi.

Áður en varir, snýst allur dagurinn hjá þorpsbúum um það að bjarga fólki úr ánni og annað venjubundið daglegt starf liggur niðri á meðan. Alltaf fjölgar þeim sem eru hjálpar þurfi en því miður þrátt fyrir mikla viðleitni þorpsbúa þá fjölgar þeim líka sem ekki verður hægt að bjarga.

Boðskapur þessarar sögu er á þá leið að þrátt fyrir mikla hetjudáð þorpsbúa til bjargar fólki í sárri neyð, þá datt engum þeirra í hug að komast að því af hverju svona margt fólk féll í ánna eða koma í veg fyrir það að það gerðist.Mögulegt er að björgunarstörf hefðu borið meiri árangur ef það hefði verið gert og eitthvað gert til þess að koma í veg fyrir það.

Um það snúast forvarnir. Að koma í veg fyrir slys og alls kyns vandamál.

Tökum höndum saman og borgum núna en ekki eftir á þegar skaðinn er skeður. Það er einfaldlega ódýrara að nýta sér tækifærið nú en margfalt dýrara þegar tækifærið er runnið úr manns greipum.

laugardagur, 15. júní 2013

Ein lítil historía

Það er ekki úr vegi að rifja upp eina gamla sögu tengda sjávarútveginum fyrst að nýr sjávarútvegsráðherra Alþingis kemur úr röðum framsóknarmanna.

Einu sinni fóru tveir útgerðarmenn úr Garði á fund þáverandi sjávarútvegsráðherra framsóknarmanna, Halldórs Ásgrímssonar. Sem er ekki í frásögur færandi, nema hvað að umræðuefnið átti að vera umsókn þeirra um að fá snurvoðarleyfi í Faxaflóa fyrir báta í þeirra eigu, svokallað Bugtarleyfi á meðal þeirra sem þekkja til.

Ástæðan var einfaldlega sú að þeim sveið því að horfa upp á snurvoðarbáta frá Reykjavík og Keflavík, nánast skafa kálgarða þeirra Garðmanna og flytja aflann til vinnslu annars staðar.

Auðvitað synjaði Halldór þeim beiðninni, án allrar umhugsunar. Ástæðan sem hann gaf: Garðurinn væri ekki við Faxaflóa!

laugardagur, 8. júní 2013

Tómstundamenntum þjóðina!

Eitt sinn þegar ég var að gramsa á internetinu vegna verkefnis sem ég þurfti að skila af mér í háskólanáminu, þá rakst ég á frétt í Viðskiptablaðinu frá 1. janúar 2010 og nefnist "Kostnaður vegna öldrunar hleðst upp" og byggðist hún meðal annars á grein sem má finna á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þar kemur fram meðal annars að fjöldi íbúa á eftirlaunaaldri kemur til með að tvöfaldast á næstu fjórum áratugum í hlutfalli við fólk á vinnumarkaðsaldri ef við getum kallað það svo, það er að segja í Evrópu. Vegna þessa munu útgjöld vegna heilbrigðis- og lífeyrismála stóraukast og Framkvæmdastjórn ESB áætlar að þau muni aukast að jafnaði 3.4% af landsframleiðslu á ári, 2.3% vegna lífeyris og 1.1% vegna heilbrigðis og umönnunar aldraðra. 

Verg landsframleiðsla á Íslandi í krónum talið var 1.537.106.000.000 (rúmlega 1.537 milljarðar ISK). Ef við tökum lífeyrinn út og reiknum bara með heilbrigðismálum og umönnun aldraðra þá gæti kostnaðurinn verið um það bil 1.7 milljarður ISK sem hann hækkar ár frá ári. Heildarútgjöld til þjónustu vegna aldraðra í árslok 2010 var 7.209.000.000 kr (rúmlega 7 milljarðar ISK).

Í framhaldinu af þessu fór ég á vef Hagstofu Íslands og kannaði fjölda aldraðra á Íslandi. Í ársbyrjun 2010 voru íslendingar 65 ára og eldri 38.069 manns, þar af voru 3.079 manns sem þurftu að leita til hjúkrunar- og dvalarheimila eða á öldrunar- og hjúkrunarlækningarými sjúkrahúsanna, hlutfall þeirra af heildarfjölda einstaklinga yfir 65 ára aldri er því 8%.

Ef við gefum okkur að þetta hlutfall muni haldast óbreytt (8%) og heimfærum það upp á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, þá má áætla að fjöldi þeirra sem þurfa að leita til öldrunar- og hjúkrunarlækningarýma og dvalarheimila verði hátt í 8.000 manns árið 2060, miðað við að fjöldi íslendinga 65 ára og eldri verða 110.964.   

Hafi menn haft ærna ástæðu til þess að kvarta undan ICESAVE-reikningnum á sínum tíma, þá er komin hér nægjanleg góð ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af framtíð hagkerfis Íslands.

En hvað er ég að tuða, tómstunda- og félagsmálafræðingurinn um hagtölur og hagkerfi Íslands?

Ástæðan er einfaldlega sú að með þátttöku í  heilbrigðum skipulögðum tómstundum viðheldur maður félagslegri færni, viðheldur andlegu og líkamlegu heilbrigði og þar með er kannski hægt að minnka líkurnar á því að maður þurfi á dýrri þjónustu á að halda þegar á efri árin eru komið.

Grískir heimspekingar forðum daga bentu á að ef það væri vinnan sem göfgaði manninn, þá væru það tómstundirnar sem mótuðu hann. Það er, hvernig einstaklingurinn nýtir frítíma sinn, getur haft gríðarleg áhrif á hvernig hann mótast sem samfélagsþegn. Lausnin er því að tómstundamennta þjóðina með því markmiði að auka ánægju hvers og eins einstaklings í frítíma þeirra. 

Með hugtakinu tómstundamenntun er átt við ferli sem á að leiða til þess að einstaklingurinn nái að hámarka ánægju sína í tómstundum sínum. Það er að segja renna styrkari stoðum undir einstaklinginn þannig að hann geti valið sér tómstund við hæfi og þroskast á þann veg að útkoman verði öllu samfélaginu til góða á endanum. Koma ætti í námsskrá grunnskólanna tómstundamenntun. Í gegnum tómstundamenntun má t.d. auka trúnna á sjálfan sig og eigin getu, sem gerir manni jafnvel kleift að standast ýmsar freistingar sem eru í boði í samfélaginu í dag og ógna jafnvel velferð þess. Tómstundamenntun getur líka nýst við starfslok síðar á ævinni, þegar maður stendur frammi fyrir þeim tímamótum að hafa allt í einu nægan tíma til þess að gera allt sem manni langar til að gera, en hefur ekki hugmynd um hvað manni langar eða hvað er í boði.

Tómstunda- og félagsmálafræðingar á Íslandi telja nú vel fyrir hundraðið. Er ekki kominn tími á að nýta sér þeirra sérþekkingu?

sunnudagur, 2. júní 2013

Hvað er tómstunda- og félagsmálafræði?

Það er ekki úr vegi fyrst maður er rétt að klára fimm ára háskólanám (3 ár B.A. og 2 ár M.Ed) í tómstunda- og félagsmálafræði að velta fyrir sér svarinu við þeirri spurningu sem dynur á mann á mannamótum, hvað er tómstunda- og félagsmálafræði?

Áður en spurningunni verður svarað verður að byrja á því að útskýra hvað tómstundir og tómstundastarf er og tilurð þess náms. Tómstundir er skilgreint sem sá tími sem maður eyðir í skipulagt starf eða afþreyingu og fer fram í frítíma hvers og eins. Frítími er aftur á móti sá tími sem maður er ekki að sinna vinnunni sinni eða (skyldu)námi og uppfylla líkamlegar og andlegar þarfir, eins og að matast, sofa, þrífa sig og sinna heilsunni (Vanda Sigurgeirsdóttir, 2010).

Síðan angar iðnbyltingarinnar náðu til Íslands og gerðu meðal annars út af við þá baðstofumenningu sem var við lýði áratugum saman frá upphafi Íslandsbyggðar, þar sem heilu kynslóðirnar eyddu kvöldunum við allskyns handavinnu, húslestur, spil og söng, þá hefur frítími fólks aukist og þá sérstaklega yngstu kynslóðarinnar sem áður fyrr tók til hendinni við húsverkin til jafns við þá fullorðnu. Við það að flytjast í þéttbýli þá myndaðist tómarúm sem umlukti börn og unglinga. Koma þurfti upp húsnæði og útvega fullorðna fólkinu atvinnu og var það í algerum forgangi vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Menntamál voru því sett í þriðja sæti, þó það ofarlega eingöngu vegna þess að við að borgarvæðast krafðist nýrrar þekkingar og vinnubragða. Allt annað sat á hakanum og þar á meðal ungviðið sem var hvernig sem á það er litið, afgangsstærð í samfélaginu. Í síbreytilegum heimi þar sem stefnubreyting verður daglega, einfaldlega það sem er „inn“ í dag er „út“ á morgun, eiga þeir sem eldri eru, erfitt með að fylgja þeirri þróun og eru jafnan mörgum skrefum á eftir. Það sem liggur þar að baki er að æska uppalenda er í raun og veru úrelt fyrirbrigði þegar kemur að uppeldi þeirra eigin barna. Ekki er hægt að heimfæra reynslu og þekkinguna yfir á næstu kynslóð, því í nútímaþjóðfélagi gerast hlutirnir hratt og nýjar hættur leynast víða sem hugsanlega voru ekki áður. Sem svar við þeirri þróun var komið á fót sérstökum félagsmiðstöðvum unglinga og var litið á þær sem visst öryggistæki, þar sem hægt væri að hafa eftirlit með unglingunum og beina þeim á heilbrigðari og skynsamari brautir (Árni Guðmundsson, 2006).
Með tilkomu iðnbyltingarinnar breyttist líf fólks. Í stað þess að vinna hátt í 70 stunda vinnuviku, þá er normið í dag 35 - 40. Tilkoma alls kyns tækni, tækja og tóla varð til þess að létta mannshöndinni verk sem áður voru erfið og tóku mikinn tíma, þar með talið heimilisstörf. Lífsgæði fólks jókst og t.d. má nefna að í Bandaríkjum Norður-Ameríku þrefaldaðist fjöldi þeirra sem voru á eftirlaunaaldri eftir aldamótin 1900 (Leitner og Leitner, 2003). Þess má geta að í framhaldi af því að ef mannfjöldaspá Hagstofu Íslands stenst, þá er áætlað að fjöldi íslendinga á eftirlaunaaldri verði hátt í 100.000 árið 2060 (Hagstofa Íslands. e.d).

Samkvæmt Weiskopf (1982) þá eyðir meðalmaður hátt í 27 árum af ævi sinni í tómstundir, það er að segja ef við miðum við að meðalmaðurinn nái 70 ára aldri. Af þessum 27 árum eyðir hann síðan um það bil 10 árum í sjónvarpsgláp og fyrst við erum farin að tala um sjónvarpsgláp, þá eyða börn á aldrinum 2 - 5 ára 25 - 32 klukkustundum á viku fyrir framan sjónvarpið (Pawlowski, 2000).
Ekki hefur verið um það deilt að hófleg líkamsrækt hressir mannsins hjarta og varla væri líkamsrækt innleidd í námsskrá grunn- og framhaldsskóla á Íslandi sem og annars staðar í hinum siðvædda heimi ef svo væri ekki. Það á engu síður við um tómstundir og tómstundastarf ýmis konar. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi getur haft góð áhrif á heilsu fólks, bæði andlega og líkamlega (Caldwell, 2005, Siegenthaler, 1997). Skipulagt tómstundastarf hefur einnig forvarnagildi gagnvart unglingum (Þórólfur Þórlindsson et al, 1998).  
Af þessu má sjá að skipulagt tómstundastarf er vel til þess fallið til þess að auka almennt heilbrigði fólks og lífshamingju til lengri tíma litið. En til þess að þeim markmiðum sé náð þá hefur myndast þörf fyrir fagfólk sem sérhæfir sig í vettvangi frítímans og nám í tómstunda- og félagsmálafræði er eitt svar við þeirri þörf. Í boði er nám í tómstunda- og félagsmálafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og skiptist í þriggja ára B.A.-nám og í framhaldi af því tveggja ára M.Ed.-nám. Tómstunda- og félagsmálafræðin er í raun og veru þverfaglegt nám og eru mörg námskeið sameiginleg með öðrum námsleiðum, t.d. kennaranámi og þroskaþjálfanámi. Námið inniheldur sálfræði, siðfræði, aðferðafræði ýmis konar, félagsfræði, verkefna- og viðburðastjórnun, stjórnun og rekstur, útivist og útinám, fyrir utan sjálfa tómstundir barna, unglinga og aldraðra svo fátt eitt sé nefnt. Í boði er bæði staðnám og fjarnám fyrir þá sem kjósa að sitja námið meðfram vinnu.

Vonandi er einhver aðeins vísari um hvað er tómstunda- og félagsmálafræði eftir þennan lestur. 
Heimildir
Árni Guðmundsson (2006). Saga félagsmiðstöðva í Reykjavík 1942-1992.  Hafnarfjörður: höf.
Caldwell, L.L. (2005): Leisure and health: why is leisure therapeutic?, British Journal of Guidance & Counselling, 33:1, 7-26. Sótt þann 29. maí 2013 af http://dx.doi.org/10.1080/03069880412331335939
Leitner, M. J. og Leitner, S. F. (2003). Leisure enhancement. Binghamton, NY : Northam :: Haworth ; Roundhouse.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2010). Skilgreining á hugtakinu tómstundir. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sótt þann 29. maí 2013 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/025.pdf
Pawlowski, C. (2000). Glued to the tube: The threat of television addicttion to today's family. Naperville, IL: Sourcebooks, Inc
Siegenthaler, K. L. (1997). Health benefits of leisure, Parks and recreation, 32(1), 24, 26, 28, 30-31 

Weiskopf, D. (1982). Recreation and leisure: Improving the quality of life. Boston: Allyn and Bacon
Þórólfur Þórlindsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Jón Gunnar Bernburg og Viðar Halldórsson. (1998). Vímuefnaneysla ungs fólks : umhverfi og aðstæður. Reykjavík: Rannsóknastofnun uppeldismála- og menntamála.